Gísli Elíasson fv. verksmiðjustjóri SREggert Theódórsson fv. lagestjóri SRÓkunn blómarós hjá SRStrákagöng við SiglufjörðFrá vígslu KFS 1966Togarinn Hafliði og GoðinnHaförninn "fastur í ís"

Haförninn með olíu Barnið vaknaði..(1) Snóflóð (2) Karlakórinn Vísir Haförninn í hafís Haförninn fastur Haförninn og  hafís Verksmiðjurnar og... Flotanum er nauðsyn... Með ljúfu geði Ísuð síld söltuð 873 síldartunnur 13- Snarráður ökumaður Á Síldarmiðunum Svipmyndir úr síldinni Geiri og Guggan Saltað um borð Dælt úr Eldborg GK ofl.

Ljósmyndasafn Steingríms, á netinu

Til forsíðu
Til baka
Fleiri myndir

>LEITARVÉLIN

Hafðu samband:

Póstfangið mitt

Gefðu mér upplýsingar um nöfn sem mig vantar

Miðvikudagur 17. júlí 1968. 

Texti og ljósmyndir: Steingrímur

Flotanum  er  nauðsyn  á meiri  aðstoð

Steingrímur Kristinsson segir frá lífinu norðaustur í hafi

Haferninum, 15. júlí

Á SÍLDARMIÐUNUM á 76° 45 N og 10° 02 A og þar í kring  er allt á ferð og flugi. Þeir sjómenn, sem hafa verið heppnir við  veiðarnar, landa síldinni og veiða til skiptis. Haförninn varð  fyrstur af flutningaskipunum á miðin, þar næst Síldin og Nordangardur, en þessi  skip flytja síld af miðunum til lands til bræðslu. Einnig er eitt  söltunarskip á miðunum á vegum íslendinga, en það er Elisabet Hersler. Annars er  þarna mýgrútur af erlendum skipum og ber þar mest á  rússneskum veiðiskipum og móðurskipum. Einnig eru þýsk og  norsk síldveiðiskip hér.

Á þessari mynd sjást fjórir skipverjar á Haferninum,  kokkurinn, Jón Rögnvaldsson, dælumaðurinn, Guðmundur Björnsson, Sigurjón Kjartansson, háseti og  bátsmaðurinn, Sigurður Jónsson hjálpast að við að  skera og salta síld í tunnu á dekki Hafarnarins.

Einn daginn slasaðist skipverji á Jörundi III, fékk hann  slæman skurð á handlegg og varð að sauma skurðinn saman.  Leitað var aðstoðar, með hjálp erlends manns um borð í Sóley  ÍS, hjá þýsku sjúkraskipi og var tekið vel í það. Héldu skipin  Jörundur III og það þýska strax á móts við hvort annað.

Þarna sjást tvö fyrstu skipin, sem lönduðu í Haförninn  á sumrinu, Barði og Bjartur NK.

Oft  hefur sjómönnum verið til þess hugsað: Hvað yrði úr sjúkum  eða slösuðum sjómanni á norður-miðum, ef Íslendingar væru  einir á miðunum? Eigum við aldrei eftir að verða raunverulega  sjálfstæðir? Þurfum við að láta passa okkur eins og börn,  bæði til lands og sjávar?

Talsverður veltingur var stundum og flæddi þá  sjór inn yfir lunningu bátanna. Þarna er Baldur EA að  koma að Haferninum með tæp 200 tonn.

Það kemur alltaf betur í ljós, hversu nauðsynlegt er að hafa  gott skip, með góða og víðtæka viðgerðarþjónustu að ógleymdu,  góðum lækni. Og ekki sakar að nefna, að það er álit margra  sjómanna, að tilkynningaskyldu skipa mætti setja fastari og ákveðnari  skorður. Einnig hafa síldarskipstjórar talið og kvartað yfir að  ekki sé nægilega vel hlustað í Reykjavik eftir kalli skipa á  stuttbylgjum.

En sennilega er Haförninn eina skipið, statt á þessum fjarlægu miðum, sem náð hefur sambandi við Reykjavík,  en  aðeins með höppum og glöppum. loftskeytamaðurinn á  Haferninum er ekki aðeins nær þegjandi hás vegna stöðugs kalls  á Reykjavíkurradíóið, heldur líka orðinn nær handlama vegna stöðugra morse sendinga, oft án árangurs. En oft  hefur hann verið eini tengiliðurinn milli flotans og lands.

Frá síldarmiðunum norðaustur í hafi. Verið er að landa úr tveimur skipum,  Barða og Bjarti, í Haförninn. . - Ljósmyndir:  Steingrímur.

Sú aðstoð, sem flutninga-skipin veita síldveiðiflotanum er mikil, en þjónustan þarf að  vera miklu meiri, en varla er möguleiki að flutningaskipin geti  bætt við sig.

Öll afgreiða þau til skipa, vatn, olíur og vistir.

Og t.d. frá brytanum á Haferninum fá þeir  svo mikið og gott úrval matvæla og eldhúsvista, að báta kokkar  hafa látið orð falla í þá átt, að bæði þjónusta og vöruúrval sé  á fáum stöðum betra í landi.

Einnig gera loftskeytamaðurinn og rafvirkinn um borð allt,  sem þeir geta til að hjálpa skipstjórum veiðiskipanna við að  kippa í lag biluðum radartækjum ofl., sem úr lagi fer.

Segja má, að losun úr veiðiskipum í Haförninn hafi gengið  vel, en losað var úr 22 skipum samtals 3230 tonnum. Sum  skipin losuðu tvisvar eins og t.d. Kristján Valgeir 455 tonnum  og Bjartur NK 328 tonn samtals.

Veður var sæmilegt þessa 3-4 sólarhringa, sem við  vorum þarna úti, nema nokkurn kalda gerði tvívegis og  torveldaði löndun,(1) því veltingur jókst.

Þegar verst var, var  bógskrúfan á Haferninum notuð til að halda skipinu upp í  vindinn.

Fastsetningartóg bátanna slitnuðu oft, eða þar til  notaðir voru endar frá Haferninum, þá gekk allt að óskum.  Auðsætt er, að hann Kári og Ægir mega talsvert bæta við  sig, ef hætta þarf löndun í Haförninn.

                     - Steingrímur

(1) Það vekur etv. athygli, að talað er um "löndun", í skip úti á hafi. En þetta var málvenja sem festist þarna úti á miðunum, skipstjórar bátanna báðu um "löndun" og skipverjar Hafarnarins "lönduðu" úr bátunum osfv.  SK