Miðvikudagur 25 apríl: Skíðalandsmót Íslands 1973
Lipurð, mýkt og kjarkur,
--- kostir stökkmannsins
Eins og fram kemur annarsstaðar í blaðinu unnu Siglfirðingar báða flokka stökksins og norrænu tvíkeppninnar. Við hittum að máli þá Rögnvald Gottskálksson sigurvegara í flokki 17- 19 ára og Steingrím Garðarsson sigurvegara í flokki fullorðinna og spurðum þá fyrst , hvort áhugi fyrir stökki væri mikill á, Siglufirði.
Þeir sögðu að áhuginn væri nokkur og virtist vera að aukast, en því miður væri stökki ekki sinnt að neinu ráði nema á Ólafsfirði og á Siglufirði.
Steingrímur dvaldist í Noregi í mánaðartíma fyrir landsmótið og báðum við hann að segja okkur lítillega frá dvölinni þar.
Aðstaðan til stökkiðkana er ekkert svipuð hér heima og í Noregi, sagði Steingrímur, það sést ef til vill best á því að þar var ég rétt liðtækur meðal 15 ára krakka og sigra svo á Íslandsmótinu hér. Stökkpallarnir þar eru mikið betri, enda er stökkið mjög vinsælt meðal Norðmanna og þeir eiga nokkra mjög góða stökkvara á heimsmælikvarða.
Næsta sumar verður væntanlega ráðist í að byggja nýjan stökkpall utan i Hólshyrnu og þá ætti aðstaðan að batna mikið og lyfta hinni fögru stökkíþrótt til vegs og virðingar.
Steingrímur Garðarsson --- sigraði í stökkkeppni og norrænni tvíkeppni
Það er ekki tekið út með sitjandi sældinni að iðka norrænu greinarnar, göngu og stökk á Íslandi, eins og fram kemur í eftirfarandi orðum Rögnvaldar.
Við höfum reynt að æfa göngu virka daga vikunnar, því ekki er tími til að fara upp í fjall og laga pallana eftir vinnu á daginn. Á laugardögum er svo oftast farið upp í Hvanneyrarskál og ef við byrjum að laga pallinn um klukkan 10 erum við varla búnir fyrr en um klukkan þrjú. Þá er farið að stökkva og við náum með góðu móti að fara fimm ferðir fyrir kvöld.
Við getum sjaldnast notað sama pallinn á sunnudeginum án þess að þurfa að laga hann alveg upp á ný.
Rögnvaldur Gottskálksson frá Siglufirði -- keppti í fyrsta sinn á landsmóti og náði góðum árangri
Þá spurðum við þá hvað þeim fyndist góður stökkvari þyrfti að hafa til að bera.
Þeir urðu sáttir um að hann þyrfti að hafa lipurð og mýkt til að bera, vera snöggur í hreyfingum og sæmilega kjarkaður.
Að lokum inntum við þá eftir því hvað þeir hugsuðu meðan þeir væru í stökkinu.
Fyrst og fremst að spyrna á réttum stað og tíma þegar pallinum sleppir. Í loftinu er það lending og stíll sem þjóta í gegnum hugann. Þegar niður kemur er það svo dómaranna að vega og meta og hugurinn vill leita til þeirra meðan beðið er.
Á.I.J.