Miðvikudagur 25 apríl: Skíðalandsmót Íslands 1973 Keppnisskapið
rigndi niður. - Sagði Haukur Jóhannsson
Ég er vitanlega mjög ánægður með árangurinn í sviginu, en það sama get ég ekki sagt um stórsvigið. Ég fann mig aldrei og það var einhvernvegin eins og keppnisskapið rigndi niður. Um veturinn í heild get ég ekki annað en verið ánægður, ég hef unnið ,ýmist svig eða stórsvig sex sinnum og hef því tryggt mér Íslandsbikarinn á skíðum þó Skarðsmótið sé eftir.
Þetta sagði Haukur Jóhannsson frá Akureyri er við ræddum við hann skömmu eftir að keppni í svigi lauk. Haukur hefur stundað æfingar sínar af kostgæfni í vetur, meðal annars dvalið við æfingar erlendis ásamt félaga sínum Árna Óðinssyni. Við spurðum Hauk hve miklum tíma hann eyddi í æfingar.
--- Ég æfi að meðaltali fjórum sinnum í viku og þá þrjá klukkutíma í senn. Við keyrum að jafnaði í gegnum 350 hlið á æfingu, þetta er erfitt og maður er sannarlega ekki til stórræðanna þegar heim kemur. Eftir að hafa stundað vinnu frá 9-5, finnst manni sem þriggja tíma skíðaæfing sé eins og leiðinleg vinna á stundum, en það þýðir ekki annað en að æfa vel ef árangur á að nást.
Haukur Jóhannsson frá Akureyri,
hlaut tvo Íslandsmeistaratitla.
Hvernig hagið þið æfingum ykkar ?
Við skiptum æfingunum í þrennt ef við getum, tveir hlutarnir fara í stórsvigsbraut, tveir í svigbraut og einum fimmta hluta æfingartímans eyðum við í frískíðuð.
Er skíðamennskan dýr íþrótt?
Fyrir hinn almenna trimmara er að vísu nokkur stofnkostnaður, en það er ekki hægt að segja að íþróttin sé dýr. Fyrir keppnismanninn gegnir öðru máli. Mér finnst nauðsynlegt að eiga fern skíði, æfingaskíði fyrir svig og stórsvig og tvenn keppnisskíði fyrir þessar sömu greinar.
Á.I.J.