Skíðalandsmótið á Siglufirði:
Akureyringar sigursælir.
EKKI er hægt að segja að Siglufjörður hafi skartað sínu fegursta nú um páskana, en þar fór skíðalandsmótið fram að þessu sinni. Loft var þungbúið allan tímann og rigning annað slagið. Logn var þó mestan mótstímann og hiti í kringum 10 stig. Miklar leysingar hafa verið á Siglufirði undanfarið og snjó tekið ört upp, þannig stóðu til dæmis hinar tvær skíðalyftur Siglfirðinga á auðri jörð og ekki reyndist unnt að flytja þær að keppnisstöðnum í tæka tíð. Þessi vandkvæði voru þó ekki alvarlegs eðlis, þó svo að himininn hafi verið grár, sást það ekki á mannfólkinu sem undi sér hið besta við keppni og við að fylgjast með því sem var að gerast.
Siglfirðingar lögðu mikla vinnu í undirbúning skíðalandsmótsins og lögðu margir hönd á plóginn með óeigingjörnu sjálfboðastarfi. Undirbúningsstarfið hófst í febrúar og jókst alltaf meira og meira er dró nær móti, alls munu um 100 manns hafa komið við sögu við undirbúninginn, en aðalstarfið hvíldi þó á herðum landsmótsstjórnarinnar. Hún var skipuð þeim Braga Magnússyni, Aðalheiði Rögnvaldsdóttur. Frey Sigurðssyni, Sverri Sveinssyni, Guðmundi Árnasyni og Helga Sveinssyni.

|
Jóhann Vilbergsson á fullri ferð. Hann keppti nú á skíðalandsmóti í 23. sinn og verður ekki annað sagt en að hann hafi staðið vel fyrir sínu. |
Þegar litið er yfir skíðalandsmót það sem haldið var á Siglufirði nú um páskana er ekki hægt að segja annað en að það hafi farið hið besta fram og verið Siglfirðingum og keppendum til mikils sóma. Allt var skipulagt út í ystu æsar og ef snurða hljóp á þráðinn var vandinn leystur hið snarasta.
Snjóleysi olli nokkrum erfiðleikum, t.d. þurfti að moka talsverðu magni af snjó svo göngubrautin yrði samfelld, en Siglfirðingar fóru létt með að leysa þann vanda. Íþróttabandalagið í Siglufirði fékk árið 1968 að gjöf frá Siglufjarðarkaupstað húseignina að Hóli, sem er fyrir innan bæinn. Þar hefur verið innréttaður góður salur, sem var opinn alla mótsdagana og gátu gestir fylgst með keppninni inni í heitum salnum yfir kaffibolla og kökum. Úrslit voru komin að Hóli hálfri mínútu eftir að keppandi kom í mark og stig úr stökkkeppninni voru gerð kunn næstum jafnskjótt og keppandinn var lentur. Úrsuslit í einstökum greinum lágu svo frammi fjölrituð fyrir hvern sem hafa vildi, stuttu eftir að keppnisgreininni var lokið.
GANGA EINSTAKLINGA
Trausti Sveinsson hefur verið sterkastur íslenskra göngumanna undanfarin ár, en nú virðast Halldór Matthíasson frá Akureyri hafa tekið við hlutverki hans. Halldór sigraði bæði í 15 og 30 km göngu og hlaut bestan tímann í boðgöngunni. Halldór stundar nám í Noregi og hefur góða aðstöðu meðal hinna gönguglöðu Norðmanna.
Trausti virðist ekki vera eins skarpur göngumaður og hann hefur verið á liðnum landsmótum, endaspretturinn, sem verið hefur hans sérgrein, var ekki umtalsverður að þessu sinni. Halldór Matthíasson er þrekmikill göngumaður, lipur og hefur betri stíl en aðrir, ef til vill er ekki rétt að tala um göngu hjá honum, en það er frekar eins og hann svífi áfram.
Reynir Sveinsson bar af keppendum í sínum flokki 17-19 ára eins og gull ber af eir. Reynir er mjög efnilegur og ekki ólíklegt að hann og Halldór eigi eftir að bítast um verðlaunasæti á næstu landsmótum. Reynir sigraði einnig í göngukeppninni í sínum flokki í fyrra.
Keppendur í flokki fullorðinna voru 19 í 15 kílómetra göngunni og 12 í 30 kílómetrunum. Í yngri flokknum voru átta keppendur í 10 km göngu. Styttri göngukeppnirnar fóru fram rétt innan við Hól, fyrsta dag mótsins, þriðjudaginn fyrir viku, en 30 km gangan í Skarðsdal á páskadag .

Göngugarparnir úr Fljótum: Trausti Sveinsson, Magnús Eiríksson og Reynir Sveinsson
BOÐGANGA
Þrisvar sinnum 10 km boðganga fór fram í Hólsdal á skýrdag og urðu Fljótamenn öruggir sigurvegarar. Þeir urðu rúmri mínútu á undan sveit númer tvö, sem var a-sveit Ísfirðinga. Siglfirðingar komu nokkuð á óvart með frammistöðu sinni í boðgöngunni.
Eftir 20 km voru þeir samsíða Fljótamönnum, en á lokasprettinum stakk Trausti Sveinsson keppinauta sína af og tryggði sigur Fljótamanna. Kristján Guðmundsson gekk síðasta sprettinn fyrir Ísfirðinga og gekk mjög rösklega, fór fram úr Siglfirðingum og færði Ísfirðingum annað sætið, níu sekúndum á undan Siglfirðingum.
Alls tóku 7 sveitir þátt í göngunni. sem fram fór í sunnan andvara og rigningu. Halldór Matthíasson frá Akureyri fékk lang bestan tíma keppenda, hann gekk á 25.47 mínútum, en næst maður var Trausti Sveinsson, gekk á 27.49 mínútum.
Rögnvaldur Gottskálksson í skíðastökki
STÖKK
Skíðalandsmótinu sem fram fór í fyrra sigraði Björn Þór Ólafsson í stökkkeppninni, þó ekki með miklum yfirburðum, því hann hlaut aðeins 0.6 stigum meira en Steingrímur Garðarsson frá Siglufirði. Nú var líka komið að Steingrími að sigra, gerði hann það næsta örugglega og virtist vera í mun betri æfingu heldur en Björn Þór.
Steingrímur átti lengstu stökkin, en lengdin kom nokkuð niður á stílnum, sem hefði mátt vera talsvert betri. Björn Þór hefur oft átt betri stökk. heldur en að þessu sinni og virtist ekki vera eins öruggur og áður.
Keppnin í stökkinu fór fram í Hvanneyrarskál og mættu fjórir til leiks í flokki fullorðinna.Í flokki 17-19 ára sigraði Rögnvaldur Gottskálksson örugglega og sýndi bæði bestan stíl keppenda í sínum flokki og öryggi.
Er ekki vafi á því að Rögnvaldur á eftir að bæta sig mikið í íþróttinni og verður gaman að fylgjast með honum á næstu skíðalandsmótum. í yngri flokknum voru keppendur fimm.Það vakti athygli að allir keppendurnir í stökkmeistarakeppninni voru frá Siglufirði og Ólafasfirði, en því miður eru þetta einu staðirnir sem sýna stökkíþróttinni einhvern áhuga.
NORRÆN TVÍKEPPNI
Í norrænni tvíkeppni er keppt í stökki og göngu og að þessu sinni var Björn Þór Ólafsson frá, Ólafsfirði kominn með yfirburða stöðu eftir gönguna.Í fyrsta stökki sínu í tvíkeppninni náði Steingrímur Garðarsson risastökki, stökk 52 metra og vænkaðist hagur hans til muna við það.Í öðru stökki Björns Þórs hlekktist honum illa. á, missti jafnavægið og snerist í hring í loftinu. Björn slapp þó furðanlega vel, en engan veginn án meiðsla. Hann lenti á höfðinu í snjónum, tognaði illa í hálsi og var fluttur á sjúkrahúsið á Siglufirði. Björn var þó óðum að ná sér og var kominn aftur á ról á föstudaginn langa, tveimur dögum eftir áfallið.
Við þetta óhapp Björns var einsýnt að Steingrímur sigraði, en eigi að síður náði Björn öðru sætinu. Í flokki 17-19 ára varð Rögnvaldur Gottskálksson hinn öruggi sigurvegari, hann hlaut tæplega 100 stigum meira en næsti maður, sem var Hörður Geirsson. Rögnvaldur virðist vera nokkuð jafnvígur í stökki og göngu, en segir þó sjálfur að stökkið sé númer eitt hjá sér.
STÓSVIG KARLA
Það var ekki sumarlegt á sumardaginn fyrsta er keppni fór fram í stórsvigi karla og kvenna og boðgöngu. Hitinn var að vísu 10 stig, en rigningarsuddi og leiðindagjóla gerðu áhorfendum, sem voru margir, og keppendum lífið leitt. Í stórsvigi karla var búist við því að glíman myndi standa á milli þeirra félaga Hauks Jóhannssonar og Árna Óðinssonar frá Akureyri. Ísfirðingar voru þó ekki á sömu bylgjulengd, sögðust þekkja sína heimamenn og voru vissir í sinni sök um sigur Hafsteins Sigurðssonar. Þegar á hólminn var komið reyndust Vestfirðingarnir hafa rétt fyrir sér, Hafsteinn sigraði, en Akureyringar urðu að láta sér nægja annað sætið.
Það var ekki mikill munur á fyrsta og öðrum manni í stórsviginu, aðeins munaði 15 hundraðshlutum úr sekúndu á tímum Hafsteins og Hauks. Í þriðja sæti varð Reykvíkingur Guðjón Ingi Sverrisson og kom frammistaða hans skemmtilega, á óvart. Guðjón keppti í b- flokki í Reykjavíkurmótinu í svigi og stórsvigi, en hlaut eigi að síður bestan tíma allra keppenda á því móti. Hann sannaði svo rækilega á skíðalandsmótinu að þeir sigrar voru ekki nein slembilukka. Guðjón er 19 ára að aldri og vonandi á hann eftir að halda merki Reykvískra skíðamanna hátt á lofti í framtíðinni.Árni Óðinsson var ræstur nr 11 og var brautin þá orðin nokkuð grafin og erfið á köflum. Árni keyrði samt sem áður á fullu og slakaði ekkert á, en í einni beygjunni, talsvert fyrir neðan miðja braut, hlekktist honum á og missti við það jafnvægi og allan hraða. Hann hélt þó áfram og tókst að ná nokkuð góðum tíma og fjórða sætinu. Gunnar Jónsson, Ísafirði var ræstur fyrstur og náði mjög góðum tíma, en hann var svo óheppinn að sleppa úr einu hliði og þrátt fyrir að hann tapaði tíma á því, var hann eðlilega dæmdur úr leik.Brautin var löng og tók á þrek keppenda, sem margir hverjir voru útkeyrðir er í markið kom.
Þá grófst brautin er leið á, sérstaklega efst, en þar var blotinn mestur. Rásmark var í norður hlíð Illviðrishnjúks og lá brautin niður með svonefndum Skarðsdalshryggjum neðst í Skarðsdal.

Þessi mynd var tekin eftir svigkeppnina af hinum sigursælu Akureyrarstúlkum. Frá vinstri: Margrét Vilhelmsdóttir, Margrét Þorvaldsdóttir, Margrét Baldvinsdóttir og Guðrún Frímannsdóttir
STÓRSVIG KVENNA
Stórsvig kvenna fór fram sunnar í hlíðinni fyrir neðan Illviðrahnjúk en stórsvig karla, en markið var á sama stað. Í stórsvigi kvenna mættu 10 keppendur til leiks, af þeim voru fjórar frá Akureyri . Akureyrsku stúlkurnar gerðu það ekki enda sleppt í stórsviginu þær unnu þrefalt og hlutu auk þess fimmta sætið.
Margrét Baldvinsdóttir bar sigur úr býtum og var tími hennar rúmum þremur sekúndum betri en Margrétar Þorvaldsdóttur, sem varð önnur, á annarri og áttundu manneskju munaði svo ekki nema tæpum þremur sekúndum og sést á því að baráttan var hörð um hvert einasta sæti. Þær sem fyrstar voru ræstar höfðu þau hlunnindi að fara ógrafna braut og var það þungt á metunum.
Sigrún Grímsdóttir frá Ísafirði og Áslaug Sigurðardóttir úr Reykjavík voru taldaar líklegar til að hljóta verðlaunasæti, en þeim tókst ekki vel upp og urðu að sætta sig við fjórða og sjötta sætið. Allar eru stúlkurnar, sem efstu sætin skipuðu eru ungar að árum og eiga því að öllum líkindum eftir að berjast á næstu landsmótum.

Sigursveit Akureyringa í flokkasvigi. Frá vinstri: Haukur Jóhannsson, Árni Óðinsson, Jónas Sigurbjörnsson og Viðar Garðarsson.
SVIG KARLA
Akureyringar voru harðir í horn að taka á þessu skíðalandsmóti og þeir sönkuðu að sér góðmálminum, hlutu alls níu gullverðlaun. Í svigi karla voru þeir Árni Óðinsson og Haukur Jóhannsson í sérflokki, eftir fyrri umferðina hafði Haukur tæprar sekúndu forskot. Í síðari ferðinni keyrði Árni á fullu, greinlega ákveðinn í að verja titil sinn. Það tókst honum ekki, því þó hann minnkaði muninn mjög mikið munaði 3/100 úr sekúndu á þeim Hauki í vil.
Hafsteinn Sigurðsson skipaði svo þriðja sætið í sviginu og mjög efnilegur Ísfirðingur, Valur Jónatansson, það fjórða. Það er nokkuð einkennilegt að Akureyringur sigri í svigi, en Ísfirðingur í stórsvigi, venjan hefur verið sú að Akureyringar væru sterkari í stórsvigi og Ísfirðingar í svigi.
Jóhann Vilbergsson, sá „aldni" skíðakappi stóð sig með miklum sóma á þessu móti, hann varð fimmti í sviginu og áttundi í stórsviginu. Jóhann hefur nú tekið þátt í 23 skíðalandsmótum í röð.
Siglfirðingar áttu ekki margar skrautfjaðrir í alpagreinum, en þó kom frammistaða Andrésar Stefánssnar skemmtilega á óvart, hann hefur ekki tekið þátt í neinu punktamóti í vetur og hafði því lélegt rásnúmer, en stóð sig eigi að síður með ágætum. Svigkeppnin fór fram á laugardaginn í norðurhlíð Skarðsdals og voru þátttakendur 28 Haukur Jóhannsson fékk bestan brautartíma í fyrri ferðinni, en Árni Óðinsson í þeirri síðari.
SVIG KVENNA
Í svigi kvenna var eingöngu um innbyrðis keppni Akureyrar stúlknanna að ræða. Eftir fyrri ferðina hafði Margrét Þorvaldsdóttir bestan tíma, rúmlega hálfri sekúndu betri en nafna hennar Baldvinsdóttir. Í síðari ferðinni hlekktist Margréti Þorvaldsdóttur á og hætti keppni. Sigraði Margrét Baldvinsdóttir því nokkuð örugglega fékk tveimur sekúndum betri tíma en þriðja Margrétin, Vilhelmsdóttir. Það undraði enga á því að tár skyldu blika á kinnum Margrétar Þorvaldsdóttur þegar hún óskaði stöllum sínum til hamingju.
Þetta skíðalandsmót á örugglega eftir að geymast í huga Sigrúnar Grímsdóttur frá Ísafirði, ekki vegna glæstra sigra, heldur vegna mikilla óheppni. Undir eðlilegum kringumstæðum hefði hún átt að geta veitt Akureyrarstúlkunum verðuga keppni, en bæði í flokkasvigi og svigi missti hún af sér skíðin og tapaði við það mörgum dýrmætum sekúndum. Svig kvenna fór fram neðst í Skarðsdal og voru keppendur 13.
FLOKKASVIG
Akureyingar höfðu yfirburði í flokkasviginu, bæði í karla og kvennaflokki. Í karlaflokki fékk Haukur Jóhannsson besta brautartímann í báðum ferðum.
Í flokki kvenna voru þátttöku sveitirnar þrjár, frá Akureyri, Siglufirði, og blönduð sveit frá Reykjavík og Ísafirði. Akureyrarsveitin sigraði með yfirburðum, Siglfirsku stúkurnar urðu aðrar, en blandaða sveitin var dæmd úr leik, en hún var með sem gestasveit. Áslaug Sigurðardóttir úr Reykjavík sýndi nú loksins sitt rétta andlit og fékk bestu brautartímana.
Á.I.J.