Gísli Elíasson fv. verksmiðjustjóri SREggert Theódórsson fv. lagestjóri SRÓkunn blómarós hjá SRStrákagöng við SiglufjörðFrá vígslu KFS 1966Togarinn Hafliði og GoðinnHaförninn "fastur í ís"

Frumkvöðlar Eggert Th. Eldur - Nero Sýningamenn ofl. Snobb - Otello Heimsmetabókin Placido Domingo Dyravarða-raunir Viðtal: Fréttablað... Non-Stop New York Merkileg bréf

Ljósmyndasafn Steingríms, á netinu

Til forsíðu
Til baka

>LEITARVÉLIN

Hafðu samband:

Póstfangið mitt

Gefðu mér upplýsingar um nöfn sem mig vantar

Bíó-Saga Siglufjarðar:

 

Eldur í Nýja Bíó - Nero keisari

Heimild:  Steingrímur Kristinsson, samkvæmt munlegri frásögn Kristins Guðmundssonar.

Frétt af eldinum ofl. úr blaðinu Neisti, "hér"

Atburður sem varð Sunnudagskvöldið 28. júní 1936: Verið að sýna kvikmyndina Quo Vadis, sem var ein af þöglu myndunum, fyrir fullu húsi, þar á meðal voru 2-3 áhafnir Færeyskra skúta. Faðir minn var að sýna og hjá honum var Ragnar elsti sonur Thorarensen, filman (spólan) sem verið var að sýna, slitnaði (fyrir ofan ramma), svo illa vildi til að filmuræman rúllaði inn í kolbogahúsið (ljósgjafann), þá voru filmurnar úr efni sem kallað var nitrit, sama efni og var notað í skotfæri í stríðinu, og ekki af sökum að spyrja það kviknaði í og áður en varði, varð af eldhaf, faðir minn rauk að Ragnari og kom honum út hið snarasta og fór síðan inn slökkti á sýningarvélinni og í fátinu opnaði hann spólukassann og ætlaði að freista þess að koma logandi filmunni út um glugga

Hann greip um spóluna, bar hana út að glugga, en um leið og aukið súrefni umlukti spóluna varð allt alelda og faðir minn brann inn að beini á höndum og brenndist illa á andliti. 

Það gleymdist í látunum að kveikja ljósin í salnum, en áhorfendur komust ekki hjá því að sjá hvað var að ske, fyrst þegar slitnaði og síðan af eldbjarmanum, og allir þutu hver um annan til dyra í myrkrinu.

Engin alvarleg meiðsl urðu þó á fólki ef undan er skilin, á sýningarmanninum. Síðar var sagt frá því að tréklossar sem Færeyingarnir áttu hefðu verið á floti um allan salinn, en þeir höfðu flestir skilið þá við sig í látunum við að komast út og  sagnir herma að það hafi verið spaugilegt að fylgjast með þeim daginn eftir, er þeir reyndu að þekkja og endurheimta skótau sitt, sumir kröfðu “bíóið” um nýja, eða bætur sem þeir fengu. 

Það urðu ekki mjög miklar skemmdir á húsinu og hófust sýningar aftur nokkrum mánuðum  síðar. Faðir minn stjórnaði uppsetningunni og lagfæringum á tækjabúnaði, en gat lítið annað gert þar sem hann var með reifaðar hendur, en hann hóf þó sýnangar að nýju þegar húsið var tekið í notkun aftur. 

þegar ég var kominn til vits og ára þá var þessi atburður rifjaður upp fyrir mér og faðir minn brýndi fyrir mér að það eina rétta sem hann gerði þetta örlagaríka kvöld var að koma Ragnari út en þó ekki alveg í réttri röð, hann hefði átt að byrja á að slökkva á vélinni, því vélin hélt áfram að keyra filmuna inn í sjóðandi heitt og logandi kolbogahúsið, koma Ragnari út og ná í slökkvitækið, hann hefði aldrei átt að opna spólukassann, alls ekki er víst að eldurinn hefði komist þangað upp á milli “rúllanna”, hann hefði átt, eftir að hafa tæmt slökkvitækið forða sér út og loka á eftir sér,  því klefinn átti að vera “eldtraustur” en þar sem hann tók spóluna þá missti hann hana og eldur komst í aðrar spólur og þá var andskotinn laus og ekki tími til annars en að forða sér og það án þess að geta lokað dyrunum.

Ég á minjar um þennan atburð, en það er filmubútur sá er hér sést  mynd af hér til vinstri. Bútur sem eftir varð í myndrammanum ein heil mynd, rammi (það eina sem ekki brann af kvikmyndinni) lítils háttar sviðinn og á svörtum fleti standa þessi orð: “Død over Nero! Død over Brændstifteren” En einmitt á þeirri stundu  í bíómyndinni sjálfri, stóð yfir sviðsetning bruna Rómarborgar á dögum Neros, eins og sagan segir og á tjaldinu í salnum var einimitt eldsvoði, borgin í ljósum logum sýnd og textinn er tilkominn þar sem fólkið “hrópaði” formælingar yfir Nero keisara, en þetta var ein af “þöglu myndunum” sem verið var að sýna og þá kom alltaf á milli hreifimyndanna texti á svörtum fleti, sem skýrði frá hvað leikarar myndanna voru að fjalla um hverju sinni, eða skýring á því sem fram fór á tjaldinu.

Á þessum tíma og raunar mikið lengur, einnig eftir að talmyndirnar komu, var textinn ávalt á dönsku, þar sem ekki var farið að texta kvikmyndir á íslenska tungu, fyrr en upp úr 1950 minnir mig. En Thorarensen flutti margar myndanna, sem sýndar voru í Nýja Bíó, inn frá Danmörku allt til 1940 eða þar til stríðið braust út.

Steingrímur