Ástæða neðan skráðra upplýsinga: Margir af þeim sem heimasíðu mína hafa heimsótt hafa spurt mig um sjálfan mig, (sent mér póst) þeir hafi áhuga á að vita fleira um mig en það sem heimasíða mín hefur upplýst til þessa. Ég ætla með þessum línum að bæta örlítið úr því.
Foreldrar mínir, Kristinn Guðmundsson og kona hans Valborg Steingrímsdóttir
Smelltu á myndirnar til að sjá þær stærri.
Kynning: Ég heiti Steingrímur Kristinsson, ég er fæddur 21. Febrúar 1934 á Siglufirði í húsi númer 1 við Mjóstræti. Foreldrar mínir voru Kristinn Guðmundsson útvarpsvirki og kona hans Valborg Steingrímsdóttir. Faðir minn var þekktastur fyrir störf sín sem sýningarmaður við Nýja Bíó á Siglufirði en þar sýndi hann bíó frá 15 ára aldri, þe. frá árinu 1928, en Nýja Bíó var reist árið 1924 og er því elsta "starfandi" kvikmyndahús landsins. Sjálfur hóf ég störf þar 14 ára sem aðstoðar sýningamaður og starfaði við kvikmyndasýningar í Nýja Bíó í rúm 50 ár.
Foreldrar konu minnar, Friðrik Stefánsson og kona hans Margrét Marsibil Eggertsdóttir
Smelltu á myndirnar til að sjá þær stærri.
Ég gifti mig um tvítugt , Guðný Ósk Friðriksdóttir, (við áttum 48 ára brúðkaupsafmæli 6. júní 2002) dóttir Friðriks Stefánssonar í Bakka og konu hans Margréti Marsibil Eggertsdóttir, við eigum saman þrjú upp komin börn, Valbjörn, Margréti Marsibil og Kristinn og að sjálfsögðu aragrúa af barnabörnum og barna-barna börnum.
Þetta er fjölskyldan mín: Margrét, - kona mín Guðný, - Kristinn, - Valbjörn og ég. Myndin er tekin 1963
"Börnin okkar":
Valbjörn Steingrímsson, f.1953, Framkvæmdastjóri hjá Íslensk Sjávarsölt ehf. Reykjarnesbæ
Margrét M Steingrímsdóttir f.1955, Kennari, á Akureyri.
Kristinn Steingrímsson, f. 1960, Verkfræðingur / hönnuður hjá Marel hf. Hafnarfirði.
Radíóverkstæðið: Sem faðir minn átti og rak,þar hóf ég mín fyrstu störf sem afgreiðslu "maður" aðeins 10 ára gamall. Starf mitt fólst í því að vakta verkstæðið á meðan faðir minn var úti að vinna, t.d. í skipum, svo og að afgreiða útvarpstæki sem búið var aðgera við og taka við öðrum, þar var ég í 2 sumur, eða þar til ég uppgötvaði að hægt var að fá "hærri laun" annarsstaðar.
Verslun Gests Fanndal: Ég réði mig þar sem sendill, þá 12 ára. Ég var þar þó ekki nema eitt sumar hjá Gesti því þó svo maður væri aðeins lausráðinn voru tekjurnar á síldarplönunum margfalt meiri og heill fjarsjóður í augum 12-13 ára gutta á þeim tímum, þó svo að oft væri maður syfjaður og þreyttur eftir næturvinnuna. Á síldarplönum náði maður sér oft í aukapening á sumrum allt frá 13 ára aldri, því alltaf vantaði fólk sem nennti að vinna, þegar síldin á annað borð veiddist.
Síldarverksmiðjur Ríkisins / SR-MJÖL HF : Ég hóf störf sem verkamaður 16 ára gamall hjá Síldarverksmiðjum Ríkisins Siglufirði, á Lagernum hjá Jóel Hjálmars þáverandi lagerstjóra, en hjá SR hefi ég sinnt óteljandi störfum, nánast öllum tegundum verksmiðjustarfa í bræðslunni, flökun ofl. störfum í Frystihúsi S.R., rafvirkja störfum, trésmíða, járnsmíða, flokks stjórn, verkstjórn, vinnuvéla stjórn, sjómennsku en nú starfa ég sem lagerstjóri á Lager SR-MJÖL Siglufirði.
Elliði SI 1 : Árið 1955 leysti ég af á togaranum Elliða SI 1 sem aðstoðar matsveinn, vera mín þar um borð var aðeins einn túr eða 14 dagar á spegil sléttum sjó og með mesta afla sem togarinn hafði nokkru sinni komið með að land og átti eftir að koma með að landi, en það voru 314 tonn af stórum og feitum þorski, af Selvogsbanka, togarinn var alveg á nösinni með þennan farm og hluturinn því góður. Næsti túr var ekki svona gjöfull því eftir 15 daga kom togarinn með aðeins tæp 65 tonn af karfa, en vitlaust veður hafði verið allan tíman. Þá hrósaði ég happi yfir því að hafa ekki farið annan túr því allan tíman í "logn" túrnum hafði ég verið sjóveikur (vægt til orða tekið) og hafði því ekki áhuga á áframhaldandi sjómennsku þann daginn. SR sá um útgerð Siglufjarðar togara á þessum tíma.
Veiðarfæraverslun Sigurðar Fanndal: Ekki hefi ég starfað allan tímann hjá SR því árið 1956 réði ég mig (vegna þá stopular vinnu hjá SR ) til Veiðafæraverslunar Sigurðar Fanndal (Georgs Fanndal) en þar var ég í rúm tvö ár og ég réði mig aftur til SR og þá hjá Páli G Jónsyni við trésmíðar, hjá "honum" var ég í 8 ár.
Haförninn. : Ein eftirminnilegustu og bestu árin til þessa hjá SR, var vera mín á Haferninum sem var keyptur til landsins árið 1966 og notaður til síldarflutninga frá fjarlægum miðum allt norður til Jan Majen og Svalbarða á sumrin og haustin, en á vetrum til lýsis flutninga frá Íslandi og olíu flutninga til landsins, auk þess að vera í leigu hjá A.P.Möller í Danmörku, en þaðan var siglt víða í Evrópu og á strandir Afríku með ýmsar tegundir vökva. Á Haferninum var ég í um þrjú og hálft ár, alltaf sjóveikur.
Krani sf. : Árið 1974 keypti ég í félagi með vini mínum, Guðmundi Skarphéðinssyni og í félagi með Þormóði Ramma hf., nýjan krana sem við áttum í 4 ár en þá seldum við ÞR kranann þar sem þáverandi stjórn fór að stunda vafasaman orðaleik, en þar sem kraninn var orðinn skuldlaus eign okkar og við Guðmundur vildum endurnýja en Þ.R. ekki, varð úr að við Guðmundur losuðum okkur úr samkrullinu.
Bílastöðin / m/s Hvalvík. : Þá keypti ég mér vörubifreið og hóf vörubíla akstur, en gafst þar upp eftir 6 mánuði hjá þeim sérkennilega þjóðflokki, sem þar réði ríkjum og seldi bílinn. Tilefnið var þó frekar, freistandi boð vinar míns frá Haferninum forðum sem nú var skipstjóri á flutningaskipinu Hvalvík þe. Guðmundur Arason en þangað fór ég sem timburmaður. Skipið var aðallega í siglingum á milli erlendra hafna með allskonar farma og var siglt allt að Mexico- flóa á ýmsar hafnir, í Miðjarðarhafið allt til Beirút í Líbanon og á hinar ýmsu hafnir í Evrópu . Þar var ég um borð tæpt ár.
Vélaverkstæði SR / Iðnskólinn: Þá hóf ég aftur störf á vélaverkstæði SR á Sigló og hóf þar nám í vélsmíði, fór í iðnskóla 45 ára gamall og kynntist á ný ungu kynslóðinni og lærði að skilja ungdóminn aftur sem var ekki eins slæmur og ég var farinn að halda. Okkur fullorðnu hættir nefnilega til að gleyma okkar eigin æsku og að vera í félagi með þeim ungu, gerir okkur sjálf ung að nýju, sú var raunin hjá mér enda féll ég fljótt í hópinn. Þetta var ánægjulegur tími í skólanum.
Nýja Bíó HF. : Árið 1982 urðu þáttaskil í lífi mínu, er dulinn draumur rættist.
Það var að ég ásamt fjölskyldu minni, keyptum Nýja Bíó og ég hætti hjá SR.
Reksturinn gekk mjög vel, fyrstu 2 árin en þá fór verulega að draga úr þreki Siglfirðinga til að fara í bíó svo vart fór að borga sig að sýna bíó og vegna harðnandi samkeppni á video leigu markaðnum dró úr þeim hagnaði, það eina sem hélt uppi rekstrinum var sjoppan og hinn bragðgóði Bíó ÍS sem allir þekkja (þekktu)
Árið 1994 tók sonur minn Valbjörn við rekstrinum sem hann gjörbreytti um leið og hann jók umfang hans verulega til hins betra, en aftur var það samkeppnin á alltof litlum markaði sem réð því að við seldum á árinu 1999 húseignina Aðalgötu 30 (Nýja Bíó) og þar hefur er nú flestu verið umturnað innanhúss og þar er komið mjög skemmtilegt umhverfi fyrir blandaðan rekstur veitinga og skemmti þjónustu.
Húsið heitir nú NÝJA BÍÓ 1924 og er rekið þar alhliða veitingasala, bar, dansstaður, ofl., þar er einnig góð aðstaða fyrir leikhús og síðar (óvissa) gert ráð fyrir áframhaldandi kvikmyndasýningum.
"Viðauki" Snemma á árinu 2002 fór rekstur hinna nýju eiganda (Nýja Bíós), "á hausinn" og Sparisjóður Siglufjarðar, yfirtók eignina í nafni Hvanndalir ehf., sem og leigði út reksturinn til; Guðrún Helga Jónsdóttir sem hefur, keypt rekstrarfélagið Bíóbarinn ehf og hefur þegar tekið við rekstri hússins.
Aftur á Lagerinn, hjá Síldarverksmiðjum Ríkisins, sem nú í dag heitir: SR-MJÖL HF. :
Og eins og áður hefur komið fram þá er ég nú lagerstjóri á Lager SR-MJÖL HF en þar hóf ég störf 1992, en þá stóð fyrir dyrum að tölvuvæða fyrirtækið og þar kom reynsla mín af tölvum að gagni, en á lagernum nú er stór hluti vinnu minnar allskonar tölvu vinna, innkaup ofl.
Heilsa: Ég hefi ávalt verið mjög heilsuhraustur og einn af þeim sem aldrei mætir seint til vinnu og fer helst ekki í rúmið þó einhver flensa gangi, kannski einu sinni annað hvert ár eða tæplega svo.
Áhugamál: Allt frá árinu 1959 hefi ég tekið mjög mikið af ljósmyndum en það var raunar fyrir hvatningu tveggja vina minna og fyrrverandi vinnufélaga, bræðrunum Óla og Pétri Guðmundsyni, en þeir lánuðu mér fyrir fyrstu alvöru myndavélinni minni, en á þeim tíma ungur og ný orðinn faðir, lítil atvinna og enn minni peningar.
Um svipað leit hóf ég að safna ljósmyndum eftir aðra ljósmyndara. Það sem aðallega hefur höfðað til mín eru andlitsmyndir og myndir tengdar vinnunni ásamt atburða myndum. Eins og fram kemur í kynningu heimasíðu minnar þá keypti ég filmusafn Kristfinns Guðjónssonar árið 1974
Blaðaljósmyndir, árið 1961 birtist mín fyrsta fréttamynd á Alþýðublaðinu og upp frá því birtust myndir í heimablöðunum aðalega þó Siglfirðingi sem ég ritstýrði í nokkur ár, þá Tímanum.
Í ágúst 1962 þegar nýju blaði MYND var hleypt af stokkunum í Reykjavík var ég fastráðinn ljósmyndari þess og var einn afkastamesti (landshluta) ljósmyndarinn sem þar starfaði, þann stutta tíma sem blaðið lifði.
Þetta blað birti nær eingöngu ljósmyndir með stuttri frétt frá hinum ýmsu stöðum á landinu.
Árið 1965 var ég orðinn fastráðinn hjá Morgunblaðinu sem ljósmyndari á Siglufirði, og tók fyrir blaðið ljósmyndir, ásamt því að skrifa fréttapistla og greinar allt til ársins 1978 er ég hætti því vegna tímaskorts.
Pólitík, um tíma var ég á kafi í ma. varfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, í bæjarstjórn, en mörg ár eru síðan ég hætti afskiptum af blessaðri "pólitíkinni".
Eloktronic. Þá hefi ég á löngu tímabili fiktað við eloktronic, (enda í blóðinu, faðir minn útvarpsvirki) sett saman og gert tilraunir með ýmiskonar rafmagnsbúnað, en hætti því alfarið fyrir nokkrum árum og gaf allt sem ég átti og sem því hobby tilheyrði, efni og mælibúnað til að vera viss um að það tefði ekki skráningu mína á filmu safni Kristfinns.
"Endir…..": Ég held ég skrifi ekki meira um sjálfan mig í bili þó ýmislegt annað hafi ég tekið mér fyrir hendur á starfsævinni, en ég hefi haldið nokkuð reglulega dagbók sem ég skrifa í á kvöldin að lokinni vinnu ef eitthvað merkilegt hendir mig, hver veit nema ég komi innihaldi hennar í bókarform þegar ellin fer að segja til sín, hver veit !!