Kvikmyndasýningar á landsbyggðinni. Bæirnir vildu bíó hafa.
Annars staðar á landinu var víðast sömu sögu að segja og í Hafnarfirði; kvikmyndabylgjan varð ekki stöðvuð. Á Ísafirði hófust til að mynda reglulegar kvikmyndasýningar árið 1917, en forsvarsmenn þeirra voru Helgi kaupmaður Guðbjartsson og Matthías Sveinsson rakarameistari. Þeir félagar tóku á leigu Góðtemplarahúsið, sem eðli málsins samkvæmt stóð við Bindindisgötu, og höfðu þar allt að þrjár sýningar á viku. Seinna festu þeir kaup á húsinu, enda gekk reksturinn vel. Um miðjan þriðja áratuginn var rafmagn lagt í bíóhúsið, en það hafði fram til þess notast við eigin rafmótor. Líklega hefur ástand raflagna þó ekki verið eins og best verður á kosið, því þegar bíóið brann til kaldra kola árið 1930 var rafmagni kennt um eldsupptökin. Bæjarstjórnin á Ísafirði fyllti sjálf í skarðið sem skapaðist við brunann og útbjó eigið kvikmyndahús í bæjarþingshúsinu, sem kallað var. Þetta var mjög í samræmi við vilja bæjar- og sveitarstjórna víða um land, en mikill gróði af rekstri kvikmyndahúsi hafði orðið tilefni gagnrýni ýmissa málsmetandi manna, sem töldu réttast að hið opinbera hefðu meira eftirlit með sýningum þessum, svo lágmenning riði ekki húsum á kostnað raunverulegrar menningar. Reglugerð bæjarstjórnar Ísafjarðar fyrir hið nýja kvikmyndahús bendir mjög í þessa átt, en þar kemur fram að kaupstaðurinn muni halda uppi kvikmyndasýningum í bænum, „með því markmiði að vanda til þeirra eftir því sem föng eru á, aðstoða skólana við kvikmyndasýningar til fræðslu en verja ágóðanum, ef nokkur verður til styrktar menningarmála í bænum“. Í árslok 1922 hófust kvikmyndasýningar með reglubundnum hætti á Sauðárkróki, en þar var það Björgvin Björgvinsson, síðar útvegsbóndi sem var helsti hvatamaður. Hann leigði Templarahúsið til sýninganna og fékk leyfi til að hafa að jafnaði þrjár sýningar um hverja helgi. Í samræmi við ótta yfirvalda við lágmenningu af völdum kvikmynda, var tekið fram í leigusamningi Templarahússins að þar skyldu ekki sýndar þær myndir sem haft geti siðspillandi áhrif á áhorfendur, fullorðna eða börn. Var sýslumanni falið að hafa eftirlit með þessu og gert að skyldu að hann fengi með nægilegum fyrirvara afhenta myndskrá hverrar sýningar til athugunar. Seinna þraut Björgvin fjárhagslegt örendi til framkvæmdanna og Kristinn Briem tók yfir hvort tveggja. Var Kristján C. Magnússon fenginn til að fara til Reykjavíkur að nema sýningarmannsstarfið í Nýja Bíó undir handleiðslu Ólafs L. Jónssonar. Sýningarnar fóru fram í nafni Sauðárkróksbíós í húsinu Bifröst og hefur kvikmyndahús verið rekið undir því nafni æ síðan. Fyrst var getið um kvikmyndasýningar á Siglufirði árið 1913 í svonefndu Biograf-húsi, en fyrri heimsstyrjöldin varð til þess að tefja fyrir að sýningar hæfust með reglubundnum hætti. Þeir Anton Jónsson, Valdimar Thorarensen og Matthías Hallgrímsson höfðu byggt hús og gert klárt til kvikmyndasýninga, en tæknin var eitthvað að stríða þeim og ekki reyndist unnt að koma ljósatækjum sýningarvélarinnar í samt lag fyrr en eftir stríð. Bíó þeirra félaga hét Siglufjarðarbíó, en gekk jafnan undir nafninu Gamla bíó. Þar var sömu sögu að segja og annars staðar á landinu, að nýtt kvikmyndahús hafði risið og því greip almenningur til þess ráðs að aðgreina bíóin með þessum einfalda hætti. Bræðurnir Oddur og Hinrik Thorarensen stóðu fyrir byggingu hins nýja kvikmyndahúss, sem formlega hóf starfsemi 17. júlí 1924. Tók salur þess um 400 manns í sæti. Eftir nokkur ár hóf Nýja bíó að sýna talmyndir og um svipað leyti lögðust sýningar í Siglufjarðarbíói af. Eggert Theódórsson sýndi fyrst í stað í Nýja bíó, en Kristinn Guðmundsson tók við er talvélar voru teknar í notkun. Gegndi hann því starfi allt til dauðadags, árið 1980. Nýja Bíó var endurbyggt stórum eftir bruna 1936, en það starfar enn þótt sýningar nú séu stopular. Þar ræður nú ríkjum Steingrímur Kristinsson, sonur Kristins, en þeir feðgar voru báðir meðal tryggustu félögum F.S.K. Í næsta nágrenni, á Dalvík, gekkst Ungmennafélag Svarfdæla fyrir kvikmyndasýningum í félagsheimili sínu, sem reist var 1930. Var fengin sýningarvél frá Akureyri og sýningar voru vinsælar, þótt þær væru býsna frumstæðar. Aðstæður sýningarmannsins voru það líka; skúr var fyrir utan húsið fyrir sýningarvélina og þangað var lagt rafmagn. Þetta var handsnúin vél og notast var við kolbogaljós. Spennu inn í skúrinn var stjórnað gegnum eldavél í íbúðarhúsi stöðvarstjóra rafmagnsveitunnar á staðnum og varð því að hlaupa á milli til að láta vita hvenær slökkva ætti eða kveikja á kolbogalampanum. Fyrsta sýningin í Dalvíkurbíói var á nýjársdag 1934, en kvikmyndasýningarnar nutu strax mikilla vinsælda í bænum og voru jafnan einnig vel sóttar af nærsveitafólki. Hefð fyrir kvikmyndasýningum í Eyjafirði var enda talsverð, þar sem Akureyringar höfðu barið fyrstir Íslendinga slíkar sýningar augum og félag til kvikmyndasýninga þar í bænum var stofnað árið 1912. Það var "Lífmyndafélagið", en eigendur þess og stofnendur voru Ragnar Ólafsson kaupmaður, Hallgrímur Kristjánsson málari og Guðlaugur Guðmundsson. Fyrsta sýningin fór fram í mars 1912 í húsnæði að Strandgötu 3. Nafni félagsins var breytt Kvikmyndafélag Akureyrar í lok fyrri heimsstyrjaldarinnar, en árið 1922 var því breytt í hlutafélag og um leið flutti kvikmyndahúsið í nýtt og sérhannað húsnæði til kvikmyndasýninga að Hafnarstræti 73. Upp frá því var aldrei talað um annað en Akureyrar Bíó í því húsi, en sýningar þar lögðust af 1930. Annað hlutafélag um rekstur kvikmyndahúss hafði nefnilega verið stofnað á Akureyri árið 1925 og enn var notast við Nýja Bíó nafnið. Eigendur þess og frumkvöðlar voru áberandi og traustir menn í bæjarlífinu norðan heiða, þeir Vilhjálmur Þór, kaupfélagsstjóri og síðar forsætisráðherra, Jón Þór málarameistari, Aðalsteinn rafvirki Kristjánsson, Jón Sigurðsson myndasmiður, Kristján Karlsson bankaritari og Jóhannes Jóhannsson verslunarmaður. Fyrstu sýningar á vegum félagsins fóru fram í Skjaldborgarhúsinu árið 1926, en það var þá nýlega byggt. Þrátt fyrir það voru aðstæður ekki beysnar til kvikmyndasýninga, aðeins rými fyrir 70 gesti og því ljóst að ekki væri um framtíðarhúsnæði Nýja Bíós að ræða. Enda fór svo að nýbygging þess reis við Strandgötu og var þar fyrst sýnt í nóvember 1929. Það húsnæði var allt hið glæsilegasta, 450 sæti í salnum og naut kvikmyndahúsið mikilla vinsælda allt frá fyrsta degi. Eigendur Akureyrar Bíós leituðu eftir samvinnu við Nýja Bíó árið 1929 og voru kvikmyndahúsin tvö rekin undir sameiginlegri stjórn um hríð eftir það. Síðustu áratugina ráku góðtemplarar á Akureyri Borgarbíó, lengst af undir stjórn Arnfinns Arnfinnssonar, eða í þrjátíu ár. Fyrir fáum árum varð síðan mikil breyting, því þá tóku fjögur kvikmyndahús í Reykjavík sig til og treystu stoðir reksturs Borgarbíós. Jafnframt gerðist Árni Samúelsson í Sam-bíóunum bakhjarl Nýja bíós, en fjórir athafnamenn höfðu þá nýlega tekið þar allt í gegn og opnað nýtt og fullkomið kvikmyndahús og sýnt kvikmyndir Sam-bíóa samkvæmt samningi.