Úr Vikublaðinu

23.nóvember 1949
Bæjarpósturinn
Björgunarafrekið við
Látrabjarg. - Slysavarnafélag
Íslands,
hefur undanfarið sýnt
kvikmynd þá, sem það lét búa til um björgunarafrekið fræga við
Látrabjarg, víðsvegar um landið.
Á mánudag og þriðjudag s.l.
14. og 15. nóvember var mynd þessi sýnd hér í Nýja Bíó. Mynd þessi er hin
fróðlegasta og athyglisverðasta í alla staði.
Þó að hún sé leikin að mestu
leyti, þ.e.a.s. björgunarsveitin endurtók í aðalatriðum björgunina upp
bjargið og önnur atriði í sem mestri líkingu við það, sem raunverulega
gerðist hina örlagaríku dga 12. til 15. desember 1947 Björgunin úr hinu
strandaða skipi er raunverulegur
þáttur, tekinn um leið og
mönnum var bjargað úr öðru skipi af björgunarsveitinni "Bræðrabandið", en
svo eðlilega felldur inn í mynduna, að ekki vekur neina sérstaka eftirtekt.
Myndin í heild er eins og áður
var sagt, hin fróðlegasta, og mun er stundir líða verða talin góð heimild
um starfsemi björgunarsveita, þar sem þær eru á annað borð meira en
nafnið tómt.
Hún gefur einnig hugmynd um þá
hetjulund, er hinir vestfirsku alþýðumenn, sem að þessari björgun stóðu,
geyma. Undir hversdagslegu yfirbragði þeirra býr sú festa og þor,
þrautseigja og hyggjuvit, sem hefur att sterkasta þáttinn í því að björgun
þessi tókst svo giftusamlega.
Flaustur og fum, fálm og
hvatvísi hefðu eyðilagt alla möguleika til þess að góðum árangri mætti ná
við þær aðstæður, sem þarna voru.
Slysavarnafélagið á miklar
þakkir skyldar fyrir að hafa haft forgöngu um að láta, búa til þessa mynd.
Hver sá, sem sér hana, sannfærist um það, að þarna hafi í raun og veru
verið unnið einstætt björgunarafrek, og hann samgleðst í hjarta, sínu
"Bræðrabands-fólkinu", þegar það að lokum hlýtur heiðurslaun fyrir afrek
sitt.